Breytingaskeiðið

Breytingaskeiðið – tíðahvörf. Efri árin

Hormónameðferð eða láta sig hafa það?

Benedikt Ó. Sveinsson læknir
Sérgrein: Kvensjúkdómar og fæðingahjálp

Meðan konur eru á frjósemisskeiði svona á aldursbilinu 15-45 ára er líkami þeirra baðaður kyn­hormónum (estrogen og progestron), sem lúta að því að hafa líkamann tilbúinn til frjóvgunar. Þessi hormóna­framleiðsla og verkun er háð mörgum þáttum, bæði ytri aðstæðum á hverjum tíma og flóknum stýrikerfum í miðtaugakerfi, svo og eggjastokkum og nýrnahettum þar sem aðal hormóna­fram­leiðslan fer fram. Séu konur í sállíkamlegu jafnvægi verður egglos á mánaðar fresti með blæðingum í kjölfarið ef frjóvgun á sér ekki stað. Bæði kynhormónin hafa veruleg áhrif á alla líkams­starf­semina, í raun meira og minna á öll líffærakerfin. Verði röskun á framleiðslu þeirra geta  komið fram margvísleg sállíkamleg einkenni. Þekktast slíkra vandamála á frjósemisskeiðinu eru blæðinga­truflanir í margbrotnum myndum. Oftar en ekki vegna sálræns álags og ytri aðstæðna. Þetta þekkja allar konur og er sennilega algengasta ástæða að þær leita til kvensjúkdómalækna.

Estrogen hormónin eru í raun þrjú:
  • Estradiol sem er aðal estrogenið á frjósemisskeiðinu og myndast í eggjastokkum,
  • Estriol sem er megin-estrogenið á meðgöngu og myndast í fylgjunni, og
  • Estrone sem er helsta estrogenið eftir að frjósemisskeiði lýkur og myndast aðallega í fituvef og nýrnahettum.

Estradiolið er kröftugast þessara hormóna og verkar á allan líkamann. Það viðheldur jafnvægi í æða­beðnum. Örvar brjóstin og viðheldur beinvexti og heldur húðinni svo og slímhúð í leggöngum mjúkri, rakri og teygjanlegri.

Estriolið sem aðallega myndast í fylgju verkar fyrst og fremst á viðtaka í þvagrás og leggöngum og undir­býr þessi líffæri undir fæðingu. Örvar slímhúðina þar svo hún verði mjög þykk og teygjanleg.

Estronið er svo mun veikara estogen sem aðalega mælist eftir tíðahvörf og viðheldur að einhverju leyti þeim líffærum sem mest eru háð estrogen framleiðslu. Þar sem það myndast aðallega í fituvef eru horaðar konur verr settar eftir tíðahvörf, slímhúðir þynnri og þurrari og líka meiri hætta á bein­þynningu.

Í ljósi þess sem að framan er rakið er ekki skrýtið að við tíðahvörf þegar snöggur skortur verður á estogen­framleiðslunni  að fram komi margvísleg sállíkamleg einkenni, sem hjá sumum konum geta verið mjög svæsin og jafnvel alvarleg. Til að einfalda málið hvort gefa eigi hormónameðferð eða ekki ætla ég að flokka vandamál sem upp koma í tvennt:

Bráðavandamál sem upp koma er frjósemistímanum lýkur: Blæðingatruflanir, hita- og svitakóf, svefn­truflanir og andleg vanlíðan með depurð og kvíða.

Langtímavandamál með áframhaldandi andlegri vanlíðan, beinþynningu, vaxandi  slímhúðarþurrki, sársauka við samfarir, minnkaðri kynlöngun, þrálátum þvagfærasýkingum og þvagleka.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að margar konur finna til lítilla hægfara eða engra breytinga við þessi tímamót. Að sjálfsögðu þurfa þær konur ekki á hormónameðferð að halda. Um það hvort gefa eigi hormón eða ekki ríkir mikill misskilningur, fordómar og ótrúleg fáfræði. Vel menntaðir læknar og á ég þar sérstaklega við heimilislækna skiptast oft í fylkingar með eða á móti hormóna­meðferð , sem gengur langt út yfir alla skynsemi og þekkingu um málið.

Eins og gildir um alla meðferð í læknisfræði eru kostir og gallar. Kostirnir eru að fólk læknast og/eða líður betur. Gallarnir geta verið allt frá óverulegum meinlausum aukaverkunum upp í lífshættulegt ástand. Kúnstin liggur í að vega og meta þessa þætti fyrir hvern og einn í góðu fræðandi samtali og finna lausn, sem er ásættanleg bæði fyrir sjúkling og lækni.

Helstu ástæður fyrir fordómum lækna á þessari hormónameðferð er krabbameinsáhættan. Því er til að svara  að það þarf að meðhöndla með inntöku eða á annan hátt í meira en áratug áður en fram kemur mjög væg aukning í brjóstakrabbameinum. Ef rétt meðferð er gefin er engin önnur krabba­meins­áhætta af svona hormónameðferð. Ef þær konur sem fá svona langtímameðferð eru rétt upplýstar og fylgt vel eftir af  sínum lækni, þeim kennd sjálfskoðun á brjóstum og fara reglulega í brjósta­myndatökur eru  þær þannig í raun í minni áhættu en þær sem engin hormón taka og fylgjast ekkert með sér, sjálfskoða ekki brjóstin og fara ekki í myndatökur.

Önnur áhætta við svona hormónameðferð er væg tíðniaukning á bláæðasega í fótum, sem getur verið alvarleg ef endar með lungnablóðtappa. Enn gildir þá sú gullna regla að fræða vel fyrir meðferð um þessa áhættu. Einkennin eru oftast nokkuð ljós og vel meðhöndlanleg ef fljótt er við brugðist.

Aðrar stórar áhættur eru ekki af hormóna (estrogen) meðferð sem gefin er til inntöku og eða í sprautu og eða hylkja formi undir húð. Kostir meðferðarinnar eru að mínu mati ótvíræðir ef konur eru illa haldnar við þessi þáttaskil. Hægt er að stýra blæðingum reglulega eða stöðva þær með hormóna­lykkju eða samsettri hormónameðferð (estrogen+progesteron). Þessi meðferð ætti að vera fyrsta val við  svefntruflunum, hita- og svitakófum, depurð, kvíða, kyndeyfð og almennri vanlíðan á þessum tímamótum.  Ekki á að grípa til svefnlyfja og lyfja við depurð og kvíða fyrr en þessi einfalda en oft mjög áhrifaríka hormónameðferð hefur verið reynd. Þetta get ég fullyrt eftir áratuga vinnu á þessu sviði og hljómar vel við þau hundruð vísindagreina og rannsókna sem ég hef kynnt mér um málið. Oft nægir að gefa þessa meðferð frá nokkrum mánuðum upp í nokkur ár. Komi einkennin hins vegar að fullu fram sé meðferð hætt skal halda henni áfram svo lengi sem hún bætir líðan og styrkir líkamann.  (Bætir andlega líðan. Hindrar beinþynningu og viðheldur rökum velnærðum slímhúðum aðallega í þvagrás og leggöngum).

Eins og að framan er rakið glíma margar konur við langtímavandamál, sem spannað getur áratugi eftir tíðastopp. Þar ber fyrst að nefna andlega vanlíðan og vaxandi beinþynningu með brotum og alvar­leika sem þeim fylgja. Í þessum tilfellum getur áframhaldandi hormónataka í formi inntöku, í sprautu og eða hylkjaformi skipt sköpum fyrir viðkomandi konur.

Eitt stærsta vandamálið á efri árum eftir 55 ára aldur er þurrkur í leggöngum og þvagrás með verk við samfarir, tíðar endurteknar blöðrubólgur með eða án þvagleka. Það er eins og þessu vandamáli fylgi einhver skömm. Allavega hef ég aldrei séð viðtöl í glamourblöðum um þessi einkenni þótt þau séu í raun ekki síður alvarleg en þau sem fram koma strax við tíðahvörf. Á mínar fjörur hefur þráfald­lega rekið konur á góðum aldri, sem ekki hafa getað haft samfarir í áraraðir eða tekið sýklalyf við blöðrubólgu árum saman án þess að hafa nokkur tíma verið boðin staðbundin hormónameðferð sem er einföld og algjörlega áhættulaus. Þessi meðferð er til í töflum, stílum, kremum og hormóna­innleggi í leggöng (Estring). Við slíka meðferð má draga hratt og örugglega úr þessum staðbundnu einkennum og stórbæta líðan fram eftir öllum aldri.

Í ljósi þess sem að framan er rakið hvet ég allar konur sem glíma við einkenni, sem á einn eða annan hátt má rekja til etrogen-progesteron skorts að leita sér hjálpar og fá meðferð við sitt hæfi. Kostirnir í bættri líðan og heilsu eru margfaldir í samanburði við áhættur, sem eru hverfandi ef réttri meðferð og eftirfylgni er beitt.

Comments are closed.