Höfundur: Þorkell Guðbrandsson dr.med.
Sérgr. Lyflækningar og hjartalækningar.

Eins og alþekkt er hefur aldurssamsetning þjóðarinnar verið að breytast og öldruðum fer fjölgandi og mun þessi þróun halda áfram á næstu árum og áratugum. Enda þótt margir eldist á heilbrigðan hátt fjölgar þeim sem eldast ekki eins og best verður á kosið. Ellihrumleiki og langvinnir sjúkdómar setja strik í reikninginn hjá fjölmörgum. Þessir kvillar geta gert okkur lífið leitt og erfitt. Margir þurfa hjálp og jafnvel stofnanavist sem getur verið þjóðfélaginu afar dýr. Það er því æskilegt að draga úr áhrifum ellihrumleika og bæta ástand hvað varðar langvinna sjúkdóma hjá öldruðum. Með því mætti spara verulega í útgjöldum heilbrigðiskerfisins.

Það er vitað að líkamsþjálfun getur seinkað eða dregið úr áhrifum ellihrumleika. Þjálfunin getur gert öldrunina heilbrigðari. Áhrif þjálfunar eru afar víðtæk, þau eru vel rannsökuð og vísindalega staðfest. Líkamsþjálfun hefur hagstæð áhrif á blóðfitur, blóðþrýsting, sykurþol, insúlínnæmi, blóðstorknun, holdafar, taugakerfi, andlega líðan og svefn. Einnig hafa nýlegar rannsóknir sýnt fram á stækkun á minnisstöðvum heilans og endurnýjun á heilafrumum. Þar að auki hefur þjálfun góð áhrif á jafnvægi, styrk vöðva og liðleika í liðum og gerir einnig beinin sterkari. Af þessari löngu og að mínu mati merkilegu upptalningu má draga þá ályktun að lífsgæði gætu aukist verulega við vel heppnað þjálfunarferli. Áhrif þjálfunar eru þó takmörkuð í tíma og til þess að viðhalda þeim þarf að viðhalda þjálfuninni, þannig að í raun þarf að gera þjálfunina hluta af daglegum lífsháttum. Líkamsþjálfun er grunnsteinn hjartaendurhæfingar og vitað er að þjálfunin hefur hagstæð áhrif á æðaþelið, eykur nýmyndun smáæða, opnar hliðaræðar og bætir háræðastarfsemina.

Á Heilsustofnun er rekin umfangsmikil endurhæfing fyrir aldraða. Samkvæmt heimasíðu stofnunarinnar er í boði öldrunarendurhæfing fyrir þá sem hafa andlegt og líkamlegt þrek til að taka þátt í virkri meðferð í hóp. Í upphafi dvalar eru framkvæmd líkamsfærnipróf, gert mat á byltuhættu og metin þörf fyrir sértæka meðferð. Meðferðarskrá er síðan sett upp í samráði við dvalargest og miðuð við getu hvers og eins. Líkamsþjálfun getur falist í leikfimi, vatnsleikfimi, göngu og styrktarþjálfun. Síðan er metin þörf á sértækri meðferð, t.d. viðtalsmeðferð, vatnsmeðferð og hitameðferð. Öll meðferð er ætíð undir eftirliti fagfólks. Meðaldvalartími til slíkrar meðferðar er fjórar vikur og markmið er að auka líkamlega, andlega og félagslega færni hins aldraða. Fjölbreytt fræðsla er í boði, m.a. um mikilvægi þjálfunar, varnir gegn byltum, minnisþjálfun, svefn, kvíða, þunglyndi og mataræði. Utan um meðferðina heldur teymi fagfólks sem samanstendur af lækni, hjúkrunarfræðingi, sjúkraliða, sjúkraþjálfara, íþróttafræðingi og sjúkranuddara.  Í lok dvalar er reynt að finna leiðir fyrir dvalargest til að viðhalda árangri eftir útskrift.

Á hverju ári koma um 550 einstaklingar 70 ára eða eldri til dvalar á Heilsustofnun. Flestir þeirra taka þátt í sértækri öldrunarendurhæfingu á svokallaðri Öldrunarlínu og taka þátt í ferli sem líkist því sem lýst er hér að ofan. Til eru ýmsar árangursmælingar varðandi ástand þessa fólks við komu og við brottför og lúta þær allar í eina átt, þannig að um greinilega framför í margs konar færni er að ræða. Sumir aldraðir hafa áttað sig á því að ástand þeirra batnar svo mikið við dvölina hér að þeir sækja um að koma aftur til dvalar að fáeinum árum liðnum. Líkur eru á að með slíkri endurhæfingu sé hægt að bæta og viðhalda bættu ástandi hins aldraða og vinna gegn ellihrumleika og einkennum langvinnra sjúkdóma. Telja má líklegt að með þessu móti megi lengja þann tíma sem viðkomandi einstaklingur getur notið heilbrigðrar öldrunar og þurfi síður á stofnanavist eða sjúkrahúsvist að halda.

Comments are closed.