Heilsudvöl fyrir lækna

Það er að sjálfsögðu  þekkt að læknar verða fyrir andlegum og líkamlegum heilsubresti eins og annað fólk. Það er líka vitað að læknar eiga erfiðara með að leita sér hjálpar en almenningur. Kemur þar margt til, náin tengsl við aðra lækna og hræðslan við að það fréttist að viðkomandi gangi ekki heill til skógar og eigi því erfitt með að sinna starfi sínu. Læknar berjast þannig oft áfram einir og óstuddir af félögum sínum þar til í óefni er komið með mistökum í vinnu, misnotkun á áfengi og öðrum vímu­efnum. Þessi staða getur leitt til óbætanlegs tjóns fyrir sjúklinga og viðkomandi lækni. Þetta er að sjálf­sögðu staða, sem enginn læknir óskar sér að lenda í. Seinustu tvo áratugi hefur orðið vitundar­vakning á þessu sviði meðal læknasamtaka bæði austan hafs og vestan. Þannig eru starfandi í Evrópu samtökin EAPH / European Association for Physiscian Health, sem halda öflug þing annað hvert ár. Það eru líka til alþjóðasamtök á þessu sviði  ICPH / International Conference on Physician Health, sem einnig halda vönduð þing annað hvert ár. Þannig eru haldin yfirgripsmikil og fræðandi þing um þessi málefni árlega. Einstaka lönd hafa sýnt þessu máli meiri áhuga en önnur. Þar eru fremstir í flokki nágrannar okkar Norðmenn. Þeir reka rannsóknasetur á þessu sviði í samvinnu við Háskólann í Osló. Halda árleg þing um niðurstöður sinna rannsókna og leggja á ráðin um úrbætur. Norsku lækna­samtökin reka einnig Heilsustofnun (búgarð) ekki ósvipuðum Heilsustofnun NLFÍ þangað sem læknar í vanda geta fyrirvaralaust leitað og fengið aðstoð, sem bundin er trúnaði.

Sá sem þessar línur ritar og hefur verið starfandi læknir á Heilsustofnun NLFÍ undanfararin ár, hefur jafn­framt verið virkur þátttakandi í framangreindum alþjóðasamtökum og barist fyrir því ásamt fleirum innan Læknafélags Íslands og Læknadeildar HÍ að þessi mál verði tekin á dagskrá og þá fyrst og fremst í formi forvarna, en einnig að sett verði á fót stuðningsnet fyrir þá sem eiga í vanda.

Árangur þeirrar vinnu  hefur verið þó nokkur. Vönduð málþing um efnið með erlendum og innlendum fyrirlesurum hafa verið haldin á Læknadögum undanfarin ár. Læknadeildin hefur kynnt málið strax í byrjun náms. Auk þess hafa ungir og áhugasamir læknanemar tekið málið í sínar hendur og kynnt innan Læknadeildar. Þá hefur stjórn Læknafélags Íslands komið að málinu  með þrennum hætti sem teljast verður til fyrimyndar.  Í fyrsta lagi lét stjórn LÍ gera á málinu ítarlega rannsókn haustið 2018 meðal íslenskra lækna undir forystu Ólafs Þ. Ævarssonar geðlæknis dr. med. Frum­niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar á Læknadögum 2019 og þeim síðan gerð ítarlegri skil á Læknadögum  2020. (Sjá meðfylgjandi fyrirlestur: Einkenni og áhrif kulnunar á líf og starf læknis. Er kulnun vandamál meðal íslenskra lækna? ).
Eins og þar kemur fram er ástandið alls ekki gott meðal íslenskra lækna  og svipar til ástandsins í okkar nágrannalöndum. Hið sama virðist einnig gilda um íslenska hjúkrunarfræðinga samkvæmt nýlegri rannsókn sem greint er frá í ofangreindum fyrirlestri. Í öðru lagi er nefnd, sem skipuð var af LÍ til að fjalla um líðan og heilsu lækna búin að koma á fót stuðningsneti lækna, sem hægt er að leita til í neyð og er að finna nöfn þessara lækna ásamt síma­númerum á heimasíðu lækna. Í þriðja og síðasta lagi er stjórn LÍ í samráði við stjórn FOSSL (Fjölskyldu- og styrktarsjóð lækna) búin að ganga þannig frá málum að læknar sem glíma við sállíkam­legan heilsu­brest geta fengið fjárstyrk úr sjóðnum sér til hvíldar og heilsueflingar.

Þá er komið að þætti Heilsustofnunar NLFÍ, sem undanfarin ár hefur boðið læknum í vanda HEILSUDVÖL til hvíldar og fjölbreyttrar endurhæfingar.

Dvöl á Heilsustofnun NLFÍ felst í þverfaglegri endurhæfingu/meðferð. Á Heilsustofnun starfa læknar með fjölbreytta reynslu, sálfræðingar, sjúkraþjálfarar, sjúkranuddarar og aðrir meðferðaraðilar. Til viðbótar við einstaklingsmiðaða meðferð og dagskrá er innifalið í dvöl: Fullt fæði, aðgangur að bað­húsi og sundlaug, tækjasal, slökunartímum, skipulagðri göngu og annarri dagskrá, sem er í boði á hverjum tíma.

Nánari upplýsingar veitir G. Birna Guðmundsdóttir yfirlæknir  netfang: birna@heilsustofnun.is og Benedikt Ó. Sveinsson læknir netfang: benedikt@heilsustofnun.is

Comments are closed.