Venjulega er hitastig  þeirra 38-40°C, nema í svokölluðum neutral böðum en þar fer hitastigið rétt niður fyrir áhættumörkin og er í kringum 30-32°C. 

Gott er að vera allt frá 15 mín. upp í 40 mín., allt eftir getu hvers og eins.

Áhrif:

 • Eykur blóðrás
 • Örvar sogæðavirkni hjá heilbrigðum einstaklingum
 • Dregur úr bólgum og verkjum í vöðvum
 • Dregur úr vöðvakrampa
 • Eykur hreyfigetu
 • Dregur úr bólgum í liðum og í kringum þá
 • Góð eftirmeðferð eftir beinbrot

Það þykir gott að fara í heita pottinn fyrir nudd eða fyrir æfingar, þar sem sársauki verður minni  á meðan meðferð stendur.  Svipuð böð með aðeins lægra hitastigi eru notuð til hreinsunar og heilunar sára, ásamt því að hreinsa burt dauðan vef.

Eftir að sár eða önnur meiðsl eru gróin verður oft minnkuð hreyfigeta vegna hreyfingarleysis og yfir svæðinu er oft bláleitur litur, tilfinningaleysi og svæðið er þá kalt  viðkomu.  Þá er dagleg notkun heita pottsins góð og í mörgum tilfellum getur ástandið lagast.  Aukin blóðrás og aukin næring berst þá til veika svæðisins.

Notkun:

 • Við meiðslum eða bólgum
 • Gegn byrjun á stirðleika, t.d eftir beinbrot
 • Við sársaukafullum örum
 • Við liðastirðleika
 • Við liðagigt (ef ekki bráðagigt)
 • Við bólgum í vöðvafestum
 • Við verkjum í stúf eftir aflimun
 • Við máttlausum og sárum fótum

Frábendingar:

 • Sykursýki
 • Æðahnútar
 • Sogæðabjúgur
 • Meiðsl á úttaugum
 • Alvarleg truflun á blóðrás, t.d blóðtappi, veikir æðaveggir o.fl.
 • Arteriosclerosa eða æðakölkun á háu stigi
 • Hjartasjúklingar ættu aðeins að nota heita potta í samráði við lækni

Athugasemdir hjartalæknis  varðandi hjartasjúklinga og baðmeðferðir

Ástand hjartasjúklinga er að sjálfsögðu afar misjafnt og á það reyndar við um fólk yfirleitt.  Varðandi baðmeðferðir þarf heilbrigð skynsemi að ráða för og á það við fyrir alla. Hjartasjúklingar með vel meðhöndlaðan sjúkdóm, í stöðugu ástandi, eru oftar en ekki færir í flestan sjó og geta farið í heita potta, sauna og köld böð eins og aðrir. Hjartabilaðir, einkennamiklir með óviðgerðan sjúkdóm og þeir sem eru á flókinni lyfjameðferð skyldu þó ekki stunda baðmeðferðir nema að undangengnu mati hjartasérfræðings. 

Þorkell Guðbrandsson dr.med.
Sérgr. Lyflækningar og hjartalækningar.

Comments are closed.