Hollráð við háþrýstingi

Tekin saman af Þorkeli Guðbrandssyni dr.med.
Sérgr. Lyflækningar og hjartalækningar.

Blóðþrýstingur

Með blóðþrýstingi er átt við þrýsting blóðsins í slagæðum líkamans. Blóðþrýstingur er nauðsynlegur til að viðhalda blóðrás til lífæra. Hjartað dælir blóðinu um æðakerfið og blóðþrýstingur ræðst einkum af dælustarfinu eða samdráttarkrafti hjartans og mótstöðu æðakerfisins.
Blóðþrýstingur mælist hæstur við samdrátt hjartans þegar blóði er dælt út í slagæðarnar. Það kallast efri mörk blóðþrýstings eða slagbilsþrýstingur. Lægstur mælist blóðþrýstingur meðan hjartað slakar á til fyllingar. Þá mælast neðri mörk blóðþrýstings eða hlébilsþrýstingur. Vð blóðþrýstingsmælingar eru ávallt skráð tvö gildi, t.d. 130/80 og eru tölurnar miðaðar við þann þrýsting sem þarf til að lyfta kvikasilfurssúlu í tiltekna hæð í millimetrum.

Eðlileg hækkun blóðþrýstings

Blóðþrýstingur er breytilegur og getur jafnvel breyst frá einu hjartaslagi til annars. Það er eðlilegt að blóðþrýstingur hækki við áreynslu og við ýmiskonar streitu og andlega spennu, en hann er lægstur í hvíld. Í svefni geta gildi verið helmingi lægri en þegar fólk vakir. Blóðþrýstingur hækkar oft með hækkandi aldri, a.m.k. efri mörkin og það getur orðið til vandræða.

Háþrýstingur

Of hár blóðþrýstingur leiðir til aukins álags á æðakerfið. Hann getur valdið hættulegum sjúkdómum svo sem heilaáföllum, hjartabilun eða versnun á nýrnastarfsemi. Of hár blóðþrýstingur eða háþrýstingur eins og ástandið er oft kallað eykur hættu á æðakölkun, sem getur leitt til stíflu í kransæðum eða slagæðum í heila og ganglimum.

Greining háþrýstings fer fram með blóðþrýstingsmælingu. Yfirleitt þarf að mæla blóðþrýsting margsinnis til að fá haldgóða vitneskju um blóðþrýstingsástand einstaklingsins. Sumir eru viðkvæmir fyrir blóðþrýstingsmælingum og hækkar blóðþrýstingur þeirra heilmikið meðan verið er að mæla hann. Þetta er stofuháþrýstingur sem getur verið ranglega greindur sem eiginlegur háþrýstingur. Þess vegna er stundum nauðsynlegt að mæla blóðþrýsting við aðrar aðstæður en læknisheimsókn, til dæmis með því að lána fólki blóðþrýstingsmæli til mælinga í heimahúsum eða á vinnustöðum. Unnt er að kaupa slíka mæla í flestum apótekum. Einnig eru til sjálfvirkir, tölvustýrðir blóðþrýstingsmælar, sem geta mælt blóðþrýsting með fyrirfram ákveðnu millibili (t.d. á 30 mínútna fresti) í lengri tíma, til dæmis í  heilan sólarhring og geta slíkar mælingar gefið mikilvægar upplýsingar í vafatilvikum.

Áður fyrr var talið að aldraðir þyldu hækkaðan blóðþrýsting betur en hinir sem yngri eru, en í ljós hefur komið við rannsóknir að full ástæða er til þess að hafa áhyggjur af of háum blóðþrýstingi hjá öldruðum. Einnig er nú vitað að skynsamleg lækkun blóðþrýstings kemur ekki síður að haldi hjá hinum öldruðu til að koma í veg fyrir fylgikvilla svo sem heilaáföll.

Í eftirfarandi töflu má sjá hvernig evrópsku háþrýstingssamtökin hafa skilgreint og flokkað blóðþrýsting samkvæmt mæligildum*:

 Slagbilsþrýstingur (mmHg)Hlébilsþrýstingur (mmHg)
Æskilegur<120<80
Eðlilegur120-12980-84
Hár eðlilegur130-13985-89
Vægur háþrýstingur140-15990-99
Talsverður háþrýstingur160-179100-109
Alvarlegur háþrýstingur≥180≥110
Einangraður slagbilsháþrýstingur≥140<90


Þegar slagbils- og hlébilsþrýstingur lenda í mismunandi flokkum blóðþrýstings skal miða við hærra gildið.

Þegar blóðþrýstingur mælist við endurteknar mælingar með efri mörk undir 130 og/eða neðri mörk undir 85 mm kvikasilfurs, telst blóðþrýstingur eðlilegur. Bilið milli eðlilegs blóðþrýstings og háþrýstings samkvæmt þessum skilgreiningum (það er 130-139/85-90) kallast hár eðlilegur blóðþrýstingur eða jafnvel jaðarháþrýstingur. Gildin 140/90 eru mörk háþrýstings. Háþrýstingi má skipta í stig eftir því hve há gildin eru sem mælast. Það nefnist t.d. alvarlegur háþrýstingur ef efri mörk eru við endurteknar mælingar 180 eða meira og/eða neðri mörk 110 eða meira. Þegar efri mörkin eru hærri en 140, en neðri mörkin lægri en 90, er talað um einangraðan slagbilsháþrýsting, sem er algengt ástand hjá öldruðu fólki og er ekki meinlaust eins og oft var talið áður fyrr. Blóðþrýstingsgildin sjálf þurfa ekki að vera algild og á það einkum við á vægari stigunum (jaðarháþrýstingi). Önnur atriði svo sem fylgisjúkdómar (t.d. sykursýki) og aðrir áhættuþættir (t.d. blóðfita) geta ráðið úrslitum um ákvörðun og upphaf blóðþrýstingslækkandi lyfjameðferðar.

Vægur háþrýstingur gefur yfirleitt engin sérstök einkenni, fólk kennir sér því einskis meins og leitar ekki læknis. Þess vegna ganga margir með aukið álag á æðakerfið árum saman án þess að vita af því. Brýnt er að allir sem komnir eru á miðjan aldur láti mæla blóðþrýsting sinn og  þekki blóðþrýstingsgildin. Þeim sem virðast hafa blóðþrýsting í hærra lagi, þótt ekki sé um sjúklega hækkun að ræða, er ráðlagt að láta fylgjast með blóðþrýstingnum til dæmis með mælingu einu sinni á ári. Með þessum hætti er unnt að koma í veg fyrir það, að alvarlegur háþrýstingur læðist að fólki og komi óþægilega á óvart með skyndilegum einkennum svo sem heilaáfalli eða kransæðastíflu.

Í langflestum tilfellum er orsök háþrýstings ókunn. Vitað er að tilhneiging til háþrýstings er oft ættlæg. Háþrýstingur getur komið í kjölfar nýrnasjúkdóma og innkirtlatruflana. Serk gigtarlyf og lakkrís geta hækkað blóðþrýsting hjá sumum einstaklingum. Sumir eru viðkvæmari en aðrir fyrir saltneyslu, sem getur haft blóðþrýstingshækkandi áhrif. Hjá sumum veldur offita og kæfisvefn hækkun á blóðþrýstingi og hjá öðrum verkar mikil streita blóðþrýstingshækkandi.

Hjá fólki sem greinist með hækkaðan blóðþrýsting finnast oft aðrir áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma. Það getur verið um samsöfnun áhættuþátta að ræða og eru einstaklingarnir oft feitir, sérstaklega um brjóst og kvið. Þá kemur fram truflun á blóðfitum svo sem hækkun á kólesteróli eða lækkun á HDL-kólesteróli (góða kólesterólinu). Við þessa samsöfnun áhættuþátta greinist oft veiklað sykurþol eða jafnvel fullorðinssykursýki, ef vel er að gáð (heilkenni efnaskiptatruflunar). Þessir einstaklingar sem eru oftast á miðjum aldri og geta virst vel á sig komnir, eru samt sem áður að rækta með sér kransæðasjúkdóm eða aðra æðakvilla. Það er því ekki nægilegt að beina athyglinni eingöngu að blóðþrýstingshækkuninni og meðhöndla hana, heldur þarf að ráðast á alla áhættuþættina. Þessir einstaklingar þurfa einatt að breyta um lífsstíl og hefja markvissa líkamsrækt, sem þarf að halda áfram árum saman.

Nákvæm læknisskoðun getur gefið mikilvægar upplýsingar um áhrif háþrýstings á hjarta og æðakerfi. Einnig eru æðar í augnbotnum skoðaðar. Hjartarafrit og/eða hjartaómskoðun og ýmis blóðpróf og athugun á þvagi eru gerð við uppvinnslu sjúklings sem greinist með háþrýsting.

Stundum færist blóðþrýstingur í eðlilegt horf með breytingu á lífsvenjum svo sem streitulosun, mataræðisbreytingu og markvissri líkamsrækt. Sjálfsagt er að beita þessum aðferðum til lækkunar  blóðþrýstings, en oftast þarf jafnframt þessu að gefa lyfjameðferð, sem halda þarf áfram árum saman. Blóðþrýstingur hækkar oftast aftur, ef lyfjameðferð er hætt vegna þess að í raun er ekki verið að meðhöndla orsökina heldur aðeins hækkunina sjálfa. Orsökin er eins og að ofan greinir oftast óþekkt. Nútíma lyfjameðferð gengur yfirleitt vel og lyfin hafa oftast fáar eða engar aukaverkanir og vitað er að með skynsamlegri blóðþrýstingslækkun má koma í veg fyrir fylgikvilla háþrýstingsins.

Til eru allnokkrir flokkar lyfja sem lækka blóðþrýsting. Það getur verið misjafnt hvaða lyf á best við hjá hverjum og einum. Flestir þurfa fleiri en eitt lyf til að ná viðunandi árangri, en markmiðið er að ná sem næst eðlilegum blóðþrýstingi, þ.e. 140/90 eða lægri gildum.

Helstu lyfjaflokkar eru þíasíðlyf, betahemlar, ACE-hemlar, angíótensín II viðtakahemlar, kalsíumgangahemlar og alfahemlar. Val lyfja getur farið eftir fylgisjúkdómum, öðrum áhættuþáttum og aukaverkunum. Hver lyfjaflokkur hefur sínar ábendingar og frábendingar og læknum eru aðgengilegar leiðbeiningar um notkun lyfjanna. Stundum þarf að gera lyfjabreytingar til að fínstilla meðferðina. Mælt er með reglubundnu eftirliti.

Að lokum skal það áréttað, að mikilvægt er að greina háþrýsting á vægu stigi. Rannsókn verður þá einföld og meðferð vænleg til árangurs. Forvarnarstarf sem felst í blóðþrýstingsmælingum við sem flest tækifæri er mikilvægt og æskilegt er að allir viti nokkurn veginn um blóðþrýstingsgildi sín.

Heimild:
*Mancia G, Laurent S, Agabiti-Rosei E, Ambrosioni E, Burnier M, Caulfield MJ, et al. Reappraisal of European guidelines on hypertension management: A European Society of Hypertension Task Force document. J Hypertens 2009; 27:2121-2158. (Síðast uppfært 2009)  

Comments are closed.