Lífræn ræktun

Á Heilsustofnun hefur verið lífræn ræktun frá stofnun. Öll ræktun sem fram fer á Heilsustofnun er lífræn og með vottun frá Vottunarstofunni Túni. Garðyrkjustöðin hefur verið lífræn frá upphafi. Fljótlega eftir að Heilsustofnun tók til starfa árið 1955 var byrjað að byggja upp stöðina. Hún er því ein elsta lífræna garðyrkjustöð landsins. 

Í garðyrkjustöðinni eru ræktaðar ýmsar tegundir grænmetis. Alls eru ræktaðar þrettán megintegundir, auk sex tegunda af salati og níu af kryddi. Auk þess eru öll sumarblóm sem plantað er í garð Heilsustofnunar ræktuð á staðnum. Grænmetið fer í matargerð fyrir gesti stofnunarinnar en einnig fer stór hluti ræktunarinnar í almenna sölu í verslanir um allt land.

Í lífrænni ræktun er óheimilt að nota tilbúinn áburð auk þess sem bannað er að nota eiturefni til að verjast illgresi, skaðlegum sveppum og skordýrum. Til að halda vottuninni er starfsemin tekin út árlega af Vottunarstofunni Túni sem vinnur samkvæmt Evrópustöðlum.
Auk þess sem garðyrkjustöðin er með lífræna vottun þá var, 1. febrúar 2006, allt landssvæði Heilsustofnunar yfirlýst sem svæði án erfðabreyttra matvæla.

Comments are closed.